Mikilvæg skilaboð frá Jeff Bridges varðandi plastpokanotkun

Opið bréf til Íslendinga

Kæru landsmenn.

 


Á hverjum degi fellur til ótrúlegt magn úrgangs úr plasti í veröldinni. Þar fara framarlega í flokki hinir sívinsælu plastpokar, en talið er að um 1 triljón plastpoka skili hlutverki sínu á heimsvísu á hverju ári. Ef litið er á Ísland eitt og sér notum við árlega um 50 milljónir burðarpoka úr plasti sem ekki brotnar niður í náttúrunni – fyrir utan allt annað einnota plast. Þessi gerviefnanotkun er bæði óþörf og óábyrg gagnvart náttúrunni.

 

Hvers vegna? Vegna þess að hefðbundnir plastpokar brotna ekki niður og eyðast lífrænt, heldur molna þeir á mjög löngum tíma niður í smærri plasteiningar sem að endingu verða að svokölluðu plastryki. Þetta plastryk endar í sjónum (berst með regnvatni, ám, foki, urðunarstöðum nálægt sjó o.s.frv.) og blandast að lokum við fæðu fugla og fiska. Oftast deyja dýrin vegna plastátsins, en ef ekki, menga þau alla fæðukeðjuna og þannig hittir plastið okkur sjálf fyrir þegar við nærumst á menguðu fiskmeti og kjöti.

 

Þessu til viðbótar má nefna að það þarf rúma 800 þúsund lítra af olíu til þess að framleiða þær 50 milljónir plastpoka sem við Íslendingar notum árlega – og þá má rétt ímynda sér orkuþörfina á heimsvísu. Með þessu er gengið að óþörfu á olíuforða heimsins á viðkvæmum tímum þegar sjálfbærni ætti að vera dagsskipunin.

 

Víða erlendis hafa neytendur tamið sér að hafa meðferðis margnota innkaupanet eða taupoka þegar þeir skreppa í búð. Þessi hugsunarháttur hefur því miður enn ekki náð að festa sig í sessi á Íslandi, hvorki meðal neytenda né kaupmanna – en nú er kominn tími til. Þetta er nefnilega svo sáraeinfalt. Í stað þess að kaupa hugsunarlaust tvo til þrjá plastpoka í hverri ferð í stórmarkaðinn er bæði ódýrara, þægilegra og grænna að hafa með sér sterka og margnota burðarpoka. Einnig er nú víða hægt að kaupa hérlendis tegundir af plastpokum sem brotna lífrænt niður í náttúrunni, þótt það virðist ekki vera öllum kunnugt. Í raun ætti notkun hinna óþolandi lífseigu plastpoka að vera orðin óþörf, því aðrir möguleikar eru til staðar.

 

Þess vegna langar okkur með þessu bréfi að hvetja alla Íslendinga, almenning, verslunarfólk og stjórnmálamenn, til þess að hrista nú loksins af sér plastið!

 

Drögum úr notkun plastpoka sem brotna ekki lífrænt niður.

Skilum öllu plastrusli reglulega á

endurvinnslustöðvar eða í græna grenndargáma.

Hjálpum til við að minnka útbreiðslu óniðurbrjótanlegra plastpoka

með því að hafa suma daga plastpokalausa – t.d. laugardaga til að byrja með!

 

Með þessum einföldu aðgerðum mun mikilvægi mengandi plastpoka minnka – og án fyrirhafnar munum við jafnvel venja okkur alveg af þeim. Margar borgir og heilu löndin hafa þegar innleitt bann við notkun óniðurbrjótanlegra plastpoka, hægt er að nefna Búrma, Rúanda, Mexíkóborg, Kaliforníufylki og ýmsar borgir á Indlandi, í Ástralíu og á Englandi. Hvers vegna ættum við þá að geispa og tefja?

 

Tökum höndum saman í þágu plánetunnar, landsins okkar og komandi kynslóða. Þetta er lítið og létt verk fyrir hvert okkar, en það mun gera verulegt gagn.

 

Takk

 

Alda Elísa Andersen, nemi

Asa Andersen, heilari 

Björg Ingadóttir, hönnuður

Dísa Anderiman, tölvufræðingur

Erna Ómarsdóttir, dansari

Gabriela Friðriksdóttir, listamaður

Gunni Hilmarsson, hönnuður

Helgi Björnsson, tónlistarmaður

Jónas Sigurðsson, tónlistarmaður

Oddur Roth, listamaður

Ólafur Heiðar Helgason, nemi  

Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir, blaðamaður

Sóley Elíasdóttir, soleyorganics

Sophie Mahlo, lögfræðingur

Tristan Gribbin, hugleiðslukennari og leikkona

 

 

 

Anna Halldórsdóttir, tónlistarmaður

Ásta Hauksdóttir, flugrekstrarfræðingur

Davíð Þór Jónsson, tónlistarmaður

Dorrit Moussaieff, forsetafrú

Farid Abdel Zato Arouna, knattspyrnumaður

Guðný Björk Hauksdóttir, heimsborgari  

Helga Thors, markaðstjóri Hörpu

Ingvar Þórðarson, kvikmyndagerðarmaður

Mundi, frumkvöðull

Ólafur Páll Gunnarsson, útvarpsmaður

Ragnar Axelsson RAX, ljósmyndari

Sigríður María Egilsdóttir, nemi

Sólveig Eiríksdóttir, matreiðslukona Gló

Teitur Þorkelsson, verkefnastjóri

Vilborg Halldórsdóttir, leikkona


FRELSUM ÍSLENSKT GRÆNMETI

Tilgangur:

Að ferskt íslenskt grænmeti sé ómengað af plasti við dreifingu.

 

Ástæða:

Plast mengar jörðina og það sem það kemur í snertingu við og flýtir fyrir rotnun.

 

1. Fá fund með Sölufélagi garðyrkjumanna og fá að vita raunverulega ástæðu þess að fersku íslensku grænmeti sé pakkað inn í plast.

 

2. Haldinn var fundur með Sölufélagi garðyrkjumanna SFG. Framkvæmdastjóri þeirra Guðlaugur Karlsson tók vel á móti okkur og tillögum um að afhenda íslenskt grænmeti án plasts.

 

Ástæða:
Hann sagði að vandamálið liggi í að verslanir fari fram á að íslensku grænmeti sé pakkað inn í plast því starfsmenn þekki ekki vöruna

Ég spyr: af hverju er hægt að bjóða upp á umbúðalaust grænmeti í stórborgun á borð við New York og Berlin (sjá myndir)? Það hljóta að vera til lausnir. :-)

 

Aðgerð:
Finna veitingahús sem vilja umbúðalaust íslenskt grænmeti
Finna verslanir sem vilja umbúðalaust íslenskt grænmeti

Vinsamlegast deilið og allar hugmyndir vel þegnar.


Takk fyrir,

 

Disa Anderiman

 

Snúum þróuninni við með plastpokalausum laugardegi -

þitt framlag skiptir öllu máli

 

Með því að hvetja Íslendinga til þess að hætta að nota plastpoka á laugardögum viljum við vekja
fólk til umhugsunar um það hversu mikið plast við notum og þau skaðlegu áhrif sem það hefur á umhverfi okkar, heilsu og efnahag. Síðan árið 2000 hafa verið framleiddir fleiri plastpokar en alla síðustu öld. Nú er kominn tími til að við snúum þróuninni við og hættum að nota plastpoka. Plastpokalaus laugardagur er liður í þeirri mikilvægu þróun.

Svo af hverju ættu Íslendingar að hætta að nota plastpoka?

  • Plastpokar eru ein helsta uppistaðan í plastmenguninni sem er að eyðileggja heimshöfin, drepa lífið í sjónum, eyðileggja vistkerfi og menga matinn okkar.
  • Hver plastpoki er aðeins notaður í 20 mínútur að meðaltali, en brotnar ekki niður í náttúrunni nema á hundruðum eða þúsundum ára.
  • Með plastnotkun sinni eru Íslendingar með beinum hætti að stuðla að meiri plastmengun í hafinu kringum Ísland, og stefna þannig rekstrargrundvelli sjávarútvegsins í mikla hættu.
  • Ólíkt mörgum öðrum plastvörum er erfitt að endurvinna plastpoka, sem þýðir að flestir þeir plastpokar sem við notum enda sem mengun í náttúrunni.
  • Plastpokar eru gerðir úr olíu, en olíuiðnaðurinn er einn sá skaðlegasti í heimi bæði í samfélagslegum og umhverfislegum skilningi.
  • Árið 2012 eyddu Íslendingar 3,2 milljarði króna af erlendum gjaldeyri í plastpakkningar sem að mestu leyti eru einnota. Hægt er að lækka þessa upphæð stórlega með því að nota fjölnota poka sem eru endurvinnanlegir og/eða lífbrjótanlegir.
  • Stjórnvöld víðs vegar um heim eru að gera eitthvað í þessum málum – um 40% heimsbygggðarinnar býr á svæðum þar sem notkun plastpoka er nú þegar takmörkuð eða bönnuð.
  • Nóg af góðum lausnum sem koma í staðinn fyrir plastpoka. Sjá síðuna hér fyrir ofan um valkosti.

 

Hvernig geta Íslendingar dregið úr daglegri plastpokanotkun?

 

Við þurfum ekki að taka stórt skref til þess að hjálpa umhverfinu. Við getum byrjað á því að líta í kringum okkur og takmarka þá hluti sem við gerum hugsunarlaust. Hættu til dæmis að nota plastpoka fyrir rusl, keyptu umhverfisvæna poka sem brotna niður í náttúruni. Taktu með þér uppáhalds pokann þinn í næsta verslunarleiðangur og slepptu því að kaupa plastpoka út í búð. Nú ef þú gleymdir að taka taupokann þinn með, kannaðu hvort verslunin bjóði ekki uppá pappakassa eða taupoka. Það eru ótalmargar lausnir og allir geta lagt sitt að mörkum.

Hafðu samband

Plastpokalaus laugardagur

plastpokalaus@gmail.com